Tvíhenduköst

Ljósmynd: Kjartan Þorbjörnsson

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024. 

Tvíhenduköst

Börkur Smári, F.F.I viðurkenndur flugukastkennari hjá Flugukast.is

Að skrifa um flugukastið, tæknina, færnina, tilfinninguna og gleðina sem fylgir vel heppnuðu flugukasti er eitthvað sem margir hafa gert, oftar en ekki í mjög löngu máli. Ég held að það sé ekki erfitt að skrifa um allt milli himins og jarðar sem tengist flugukastinu, enda af nógu að taka. En hitt er öllu snúnara, að skrifa í stuttu máli leiðbeiningar og punkta sem flestir geta tengt við og nýtt sér til góðs. En hér er mín tilraun að skrifa einfalda en hnitmiðaða punkta um tvíhenduköst.

Það sem hér er skrifað er byggt á eigin reynslu í kastæfingum og í veiði. En ekki síst í kennslu þar sem punktar sem þessir skipta öllu máli í að aðstoða nemandann í að skilja og fatta í litlum en mikilvægum skrefum hvernig gott flugukast verður til. Þessir punktar eru ekki heilagur sannleikur og margar mismunandi leiðir til að ná sömu niðurstöðu. Ég hvet ykkur því til að lesa, fræðast og prófa ykkur áfram og sjá hvað virkar fyrir ykkur.

Allra fyrst vil ég nefna að flugukastið á einhendu og tvíhendu byggir á nákvæmlega sömu lögmálum. Flugustöngin (ein- eða tvíhenda) virkar sem armur, sem snýst um ás (eins og vegasalt) og hjálpar okkur að koma flugulínunni á hreyfingu (í kastinu) sem að lokum endar með því að hún flýgur í gegnum loftið (eftir að stöngin stoppar), réttir úr sér og lendir á vatnsfletinum. Hvaða hreyfingar við framkvæmum þarna á undan ráða því hvernig kastið heppnast, hvort sem við notum eina eða tvær hendur. En til að ná góðu, skilvirku og fallegu kasti þá þurfum við að haka í nokkur box. Þau ætla ég ekki að fara nánar út í hér heldur gefa nokkra góða punkta sem geta hjálpað þér, lesandi góður, að komast af stað í tvíhenduköstum og/eða bæta núverandi kasttækni.

Börkur Smári t.v. kennir fluguköst.

Í fyrsta lagi, mæli ég með axlabreidd milli efri og neðri handar á tvíhendunni. Ég mæli ávallt með að halda ákveðið en mjúklega um stöngina, bæði efra og neðra grip. Þið eruð ekki að reyna að kreista líftóruna úr korkinum.

Í öðru lagi, komið dágóðu magni af flugulínu út fyrir stangarendann. Ef þið eruð með scandi eða skagit hausa þá er gott að á láta endann á hausnum nema við stangarendann eða jafnvel örlítið fyrir innan. Með heilar flugulínur þá er oft sýnilegt hvar þykkari endinn (hausinn) endar og running línan byrjar, þá er gott að hafa smá hluta af þykkari hlutanum fyrir innan stangarendann.

Í þriðja lagi, veltikastið (roll cast), fyrsta og mikilvægasta kastið sem þið munið læra á tvíhendu. Þetta kast er algjör grunnur fyrir það sem koma skal. Til einföldunar þá skulum við skipta veltikastinu upp í tvo hluta, að draga línuna aftur á bak og í svokallaða D-lúppu (D-loop) og svo framkastið þar sem stönginni er sveiflað fram í ákveðið stopp þannig að línan kastast áfram og rúllast út eins og rauði dregilinn í Hollywood. Ef þið náið grunnhreyfingunum góðum í þessu kasti munu ykkur allir vegir verða færir. Nóg er af upplýsingum á netinu um þetta kast og meira til og ég hvet ykkur til að lesa ykkur til og horfa á það framkvæmt. En hér vil ég nefna örfáa punkta til að hugsa um sem hafa hjálpað mér og mínum nemendum hvað mest í að ná tökum á þessu kasti á tvíhendu. Sjá atriðin hér fyrir neðan.  

Í fyrsta lagi, mæli ég með axlabreidd milli efri og neðri handar á tvíhendunni. Ég mæli ávallt með að halda ákveðið en mjúklega um stöngina, bæði efra og neðra grip. Þið eruð ekki að reyna að kreista líftóruna úr korkinum.

Í öðru lagi, komið dágóðu magni af flugulínu út fyrir stangarendann. Ef þið eruð með scandi eða skagit hausa þá er gott að á láta endann á hausnum nema við stangarendann eða jafnvel örlítið fyrir innan. Með heilar flugulínur þá er oft sýnilegt hvar þykkari endinn (hausinn) endar og running línan byrjar, þá er gott að hafa smá hluta af þykkari hlutanum fyrir innan stangarendann.

Í þriðja lagi, veltikastið (roll cast), fyrsta og mikilvægasta kastið sem þið munið læra á tvíhendu. Þetta kast er algjör grunnur fyrir það sem koma skal. Til einföldunar þá skulum við skipta veltikastinu upp í tvo hluta, að draga línuna aftur á bak og í svokallaða D-lúppu (D-loop) og svo framkastið þar sem stönginni er sveiflað fram í ákveðið stopp þannig að línan kastast áfram og rúllast út eins og rauði dregilinn í Hollywood. Ef þið náið grunnhreyfingunum góðum í þessu kasti munu ykkur allir vegir verða færir. Nóg er af upplýsingum á netinu um þetta kast og meira til og ég hvet ykkur til að lesa ykkur til og horfa á það framkvæmt. En hér vil ég nefna örfáa punkta til að hugsa um sem hafa hjálpað mér og mínum nemendum hvað mest í að ná tökum á þessu kasti á tvíhendu. Sjá atriðin hér fyrir neðan.  

1

Afslöppuð líkamsstaða, slök í öxlum og haldið mjúklega en ákveðið um stöngina.

2

Olnbogar í 90°, á báðum höndum (a.m.k. meðan þið eruð að fá tilfinningu fyrir kastinu). Ég vil meina að þetta sé allra mikilvægasti punkturinn.

3

Þá hefst kastið. Stöngin lárétt og stefnir beint fram, línan á vatnsfletinum fyrir framan ykkur. Lyftið báðum höndum hægt upp og þannig að stangarendinn færist upp og aftur fyrir ykkur. Olnbogar í 90°.

4

Stangarendinn hallar aðeins til hliðar og afturhreyfingin stoppar þegar stangartoppurinn er kominn það aftarlega að línan hangir úr honum og myndar fallegan boga niður að vatnsfletinum. Ekki of aftarlega með stangarendann (á klukkuskífu væri það milli kl 10 og 11, eða 25-30° frá lóðréttu). Hér er oft neðri hendinn til móts við háls eða höku, og efri hendin til hliðar við höfuð og jafnvel aðeins fyrir ofan.

5

Þá að framkastinu. Kastið byrjar í neðri hendinni, nánast þannig að hendin byrjar að detta niður en svo er hún dregin snögglega inn að maganum á sama tíma og þið passið olnboga á báðum höndum í 90°. Helstu mistökin sem gerast hér er að olnbogi efri handar réttir úr sér. Þetta tengist því oft að efri hendin er sú sem er notuð þegar fólk kastar einhendu og hún er því oft ráðandi og erfitt að “slökkva” á henni. Í tvíhenduköstum er neðri hendin yfirmaðurinn, forstjórinn og forsetinn.

6

Ef þið náið að draga neðri hendina snögglega að maganum í lok framkastsins, nánast þannig að þið sláið ykkur aðeins í magann, og haldið olnboga á efri hendi í 90° í gegnum allt kastið þá eru allar líkur á að þið ná góðu framkasti.

Með því að rúlla í gegnum þessa punkta þá vona ég að þið fáið tilfinningu fyrir því hvernig tvíhendukastið virkar. Eins og með alla aðra nýja færni þá tekur tíma að tileinka sér hana. En með reglulegum æfingum, ekki of löngum í einu, 15-20 mín duga vel, taka sjálfan sig upp á myndband, eða æfa sig með makkernum er hægt að ná ótrúlegum árangri á stuttum tíma. Að fá góða kennslu getur síðan verið gulls ígildi og við erum heppin að hér á Íslandi eru menntaðir flugukastkennarar sem geta aðstoðað. Ég vona að þið hafið fengið eitthvað út úr þessum lestri og óska ykkur fallegra flugukasta og gleðilegra stunda við bakkann.