Sjaldgæft augnablik. Tóti kastar mæðinni við Kjarrá. Ljósmynd/Einar Falur
Þessi grein birtist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024.
Það þótti tíðindum sæta þegar lifandi laxveiðigoðsögnin Tóti tönn var fyrsti veiðimaður í heiminum til að fá afhenta nýju Sage Spey R8 tvíhenduna. Mikil leynd hafði hvílt yfir stönginni og opinberunardagurinn var 16. janúar. Það er staðfest af framleiðendum að Tóti, Þórarinn Sigþórsson var fyrsti veiðimaðurinn sem fékk hana í hendurnar. Og karlinn beið ekki boðanna hann fór með hana út á Klambratún og prófaði gripinn samdægurs.
Tóti tekur við fyrstu Sage Spey R8 tvíhendunni sem afhent var í heiminum. María Anna Clausen samgleðst Tóta.
„Já. Hún stóð undir væntingum. En það er ekkert að marka þetta strax. Maður þarf að aðeins að venjast nýrri stöng og ykkar hjörtu þurfa að slá í takt. Það tekur nokkur skipti. Miðað við þessa frumraun er þó ljóst að hún stendur undir mínum væntingum. Þetta er kostagripur.“
Hin raunverulega prófraun verður svo í vorfiski í Kjarrá um mánaðamótin júní júlí. Þar er tveggja ára fiskur á ferðinni og líklegt að Tóti muni þar fá tækifæri til að upplifa alla eiginleika nýju tvíhendunnar.
Veiði settist niður með Tóta tönn. Nýja stöngin var á borðinu og við handfjötluðum hana á meðan að spjallið fór fram. Það er svo margt sem maður vill ræða við þennan síunga veiðimann númer eitt í heiminum. Við byrjum á fjölda laxa. Tóti heldur bókhald og uppfærir það árlega á dagatalinu sínu.
Hvað segir dagatalið Tóti?
Hann sprettur upp eins og fjöður. „Bíddu. Ég þarf að kíkja á dagatalið.“ Hann hverfur fram. Kallar svo; „Bíddu, þetta er að koma. Ég held nákvæmt bókhald yfir fjölda laxa og legg svo alltaf lokatöluna við töluna frá í fyrra. Þá fæ ég heildarveiðina. Ég hefði getað haldið nákvæmara bókhald. Ég byrjaði á að skrifa þetta allt hjá mér en þetta var svo mikil vinna að ég gafst upp á því að bóka hvern einasta fisk.
Já. Hér er þetta. Nú þetta eru bara rúmlega tuttugu og eitt þúsund.“
Hann horfir á mig og segir ákveðinn. „Ég er búinn að veiða 21.077 laxa, að mér telst til. Þetta er svona heldur rólegra yfir þessu síðustu ár.“
Ef þú hefðir verið með þessa stöng, Sage Spey R8 í höndunum fyrir einhverjum áratugum. Hverju hefði það breytt?
„Það hefði örugglega breytt miklu og sjálfsagt eitthvað fjölgað löxunum. Ég þori ekkert að fullyrða hversu miklu fleiri þeir hefðu orðið en þeim hefði fjölgað. Blessaður vertu. Fyrir áratugum síðan voru þetta allt önnur veiðitæki sem maður var með í höndunum.“
Ef við berum saman tæki og tól í dag miðað við í gamla daga. Hver er mesti munurinn þegar kemur að veiðibúnaði?
„Sko. Þú verður eiginlega að fá á tilfinninguna, þegar þú heldur á stönginni og ert að veiða með henni að hún sé bara framhald af þér sjálfum. Stöngin og þú þurfa að vera eitt og slá í takt. Veiðistangirnar eru stærsti munurinn. Stangirnar í gamla daga voru margar hverjar óttalegir lurkar. Þarna er mesti munurinn, að ég tala nú ekki um þessar nýjustu Sage stangir. Þær vinna miklu betur og ég hef ekki notað annað síðan að Sage One kom á markað. Það er alveg frábær stöng en ég held að þessi komi til með að taka henni fram.“
Tóti á göngu upp með Kjarrá, skammt neðan Lambár. Tóti fór iðulega upp á efstu veiðistaði og er það löng ganga. Ljósmynd/Einar Falur
Ertu mikill Sage maður Tóti?
„Ég er orðinn það. Það er bara Sage sjálfur sem hefur skapað það. Það er ekkert öðruvísi. Þetta er bara eins og þegar þú sest undir stýri á bíl. Þú finnur fljótt hvað hann hefur upp á að bjóða.“
Tóti talar ekki bara sem veiðimaður. Hann hannaði á sínum tíma stöng fyrir framleiðandann Thomas&Thomas. Það var ellefu feta flugustöng og Tóti segir sjálfur um hana; „Það var ágæt stöng. En þessar Sage stangir standa fetinu framar. Það er engin spurning um það.“
Honum finnst að þróunin í framleiðslu og hönnun á stöngum hafi verið nokkuð jöfn í gegnum tíðina. Hann segir að það hafi svo sem ekki orðið neinar byltingar á þessu sviði en þróunin hafi verið góð og stöðug í stangagerð. „Þetta eru bara orðin vísindi í dag. Það er ekki flóknara en það. Þú sérð bara þessar stengur í dag. Þær bara brotna ekki í fiski. Það er alveg sama hvað þú tekur á þeim. Maður er jafnvel búinn að vefja þeim í hring og það er ekkert lát á. Þannig að það er orðin gríðarleg tækni sem menn eru að beita við þessa framleiðslu.“
Hvað með aðra hluti, eins og veiðihjól og flugulínur?
„Mesta þróunin hefur klárlega orðið í veiðistöngunum. Minnsta breytingin er sennilega í veiðihjólunum. Það hefur hins vegar orðið mikil breyting í línum og þú kastar þeim orðið betur og nákvæmar heldur en var á árum áður.“
Hvernig væri þessi stöng í maðkveiði? Að renna með henni? Kæmi til greina að nota hana í maðkveiði til dæmis í Rangánum, þegar sá tími árs rennur upp? Þessi spurning kemur til af tvennu. Bæði er Tóti líklega sá maður sem náð hefur hvað mestri leikni í veiði með maðki á meðan að stunda mátti þann veiðiskap og við vitum að Tóti hefur oft gert fanta veiði í Rangánum síðsumars.
Hann rekur upp stór augu og segist aldrei hafa notað maðk í Rangánum. „Ég veiði bara á flugu þar og svo fer ég alltaf einn túr þegar spúnninn er leyfður. Þá nota ég hann samhliða flugunni.“
Tóti á göngu upp með Kjarrá, skammt neðan Lambár. Tóti fór iðulega upp á efstu veiðistaði og er það löng ganga. Ljósmynd: Einar Falur
Saknarðu ekki maðkveiðinnar?
„Jú, jú. Ég sakna þess vissulega. Maðkveiði á hins vegar bara við í vissum ám. Rangárnar eru síst í þeim flokki. Þetta þurfa að vera þröngar ár og ekki allt of vatnsmiklar. Það þurfa að vera ákveðin skilyrði til staðar svo að það sé gaman að veiða á maðk.“
Upp í hausinn á mér kemur mynd af Tóta í þröngum neonpren vöðlum hlaupandi um Höklana í Kjósinni. Skyggnandi, rennandi og hlaupandi milli veiðistaðanna sem hann veit að göngufiskurinn hinkrar í. Hann setur í hann og landar á örstuttum tíma. Strax annar. Lítill klettaskúti úti í miðri á er orðinn fullur af silfurbjörtum stórlaxi. Þarna var Tóti á hátindi. Þetta er minning úr laxveiðimynd sem gerð var um Laxá í Kjós á síðustu öld. Svo sannarlega var öldin önnur þá.
Hvað myndi Tóti ráðleggja manneskju að hafa í huga þegar fyrsta stöngin er keypt?
„Þetta er ákaflega góð spurning. Auðvitað er þetta alltaf einstaklingsbundið, hvað hentar hinum og þessum. Ég myndi auðvitað ráðleggja að nota það sem mér fellur best við. Það gefur auga leið. Svo ég grípi nú aftur til samlíkingarinnar með bílinn. Dýr bíll er yfirleitt betri en ódýr bíll. Það er betra að keyra hann og þú nærð betri árangri. Það er alveg nákvæmlega það sama með veiðistangir.“
Tóti hefur eðli málsins samkvæmt átt fjölmargar veiðistangir á sínum magnaða ferli sem laxveiðimaður. En hvað á hann margar stangir í dag?
„Ég hef nákvæma tölu á því og ég losa mig alltaf við gömlu stangirnar og hef aldrei verið í því að safna veiðistöngum. Ég á eingöngu Sage stangir sem ég nota í dag. Ég á þrjár ellefu feta stangir og þrjár sem eru þrettán og hálft fet. Já og ég á eina spúnastöng og svo er ég alltaf með gamla maðkastöng sem ég lét sérsmíða fyrir mig í gamla daga. Ég held ég hafi ekki notað hana í áratugi. Það er Scotts stöng og á þessum tíma voru stangir yfirleitt aðeins of mjúkar fyrir minn smekk og ég vildi láta færa sætið fyrir hjólið miðað við það sem var á flugustöngunum. Góð maðkastöng þarf að hafa allt aðra eiginleika en flugustöng. Hún þarf að vera létt og stíf og hjólsætið á svipuðum stað og gerist með spúnastangir.“
Tóti hugsar sig aðeins um og bætir svo við; „Já svo við teljum allt til þá á ég eina sjóstöng.“
Já. Ertu að nota hana eitthvað?
„Ekki mikið en ég hef aðeins notað hana. Mér finnst það nú dálítið hipsumhaps, sem veiðiskapur, að renna í hafið eins og það leggur sig.“ Við hlæjum báðir.
Tannlæknirinn, eða The Dentist eins og margir erlendir veiðimenn kalla Tóta fagnaði í janúar 86 ára afmæli sínu. Sprækur eins og lækur og ekki margir sem fara í förin hans.
Tóti og Egill Guðjohnsen hafa veitt saman í áratugi.
Urriðafoss er einn af þeim stöðum sem þeir heimsækja árlega.
Ætlarðu að veiða mikið í sumar?
„Já. Ég býst við því að ég verði nokkuð duglegur. Það er af sem áður var þegar maður var síveiðandi allt sumarið. Veiðibakterían er þó alltaf á sínum stað og ég þarf að sinna henni.“
Vorið 2018 tók undirritaður viðtal við Tóta fyrir Sportveiðiblaðið. Þá hafði hann veitt 20.511 laxa. Nú hefur hann bætt við 566 löxum. Það er aðeins minna en öll sumarveiðin var í Laxá í Kjós í fyrra.
„Það er ótrúlega minnkandi veiði. Það er samt alltaf að verða erfiðara og dýrara að komast á topptíma í bestu árnar. Það verður bara að bíta í það súra epli.“
Tóti þreytir lax í Svartastokki, einum af efstu stöðum Kjarrár. Ljósmynd: Einar Falur
Að lokum Tóti. Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir komandi veiðisumri?
„Ég segi það bara eins og það er að ég er ekki alltof bjartsýnn. Ég hef hins vegar ekkert fyrir mér í því. Fiskifræðingar spá meiri veiði. Veiðimenn eru á báðum áttum, ofurlítið eftir því hvernig liggur á þeim en því miður virðist þetta vera þróunin hvert sem litið er. Ég held að þarna spili margir hlutir. Breytingar í sjónum og sleppingar úr kvíunum í sjókvíaeldinu eru skelfilegar. Þeir fullyrtu á sínum tíma að það slyppi ekki einn fiskur úr kvíunum. Það hefur því miður reynst tóm della. Ég býst þó við að þetta horfi til skárri vegar ef þetta fer upp á land. Mér finnst forsenda fyrir áframhaldandi eldi að það fari upp á land. En er það ekki bara orðið of seint? Það mælist orðið erðablöndun í laxastofnum um allan heim.
Við erum komin á þann stað að þessi laxastofn okkar er bara leifarnar. Alls staðar í kringum okkur sjáum við hrun í laxastofnum. Mér verður bara hugsað til Árna Baldurssonar vinar míns. Hann var búinn að vera samfellt í hátt í þrjár vikur í fyrra í Skotlandi og á Írlandi áður en hann fékk fyrsta laxinn. Svo eyddi hann öðrum eins tíma í að fá annan. Þetta er ekki orðin nein veiði. Þetta eru bara leifarnar. Því miður.“
Kíkt í Aquarium í Kjarrá. Tóti fer hratt yfir og það er aldrei slakað á. Ljósmynd/Einar Falur
Texti: Eggert Skúlason

