Ólafur Ágúst Haraldsson á heimavelli. Þessir urriðar eru svo magnaðir. Stórir og sterkir.
Þessi grein birtist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024.
Heimsókn til Caddisbræðra
Þeir Caddisbræður, Ólafur Ágúst Haraldsson og Hrafn Ágústsson eru nördar. Silungsveiðinördar. Ef einhver telur að orðið nörd sé neikvætt þá leiðréttist það hér með. Þeir eru lengra komnir í sinni silungsveiði en flestir vissu að hægt væri að komast. Námskeiðin þeirra um fluguveiði á urriðanum í Laxárdal hafa þegar hjálpað mörgum veiðimanninum og á sama tíma dýpkað skilning á lífríki, og hvernig hægt er að ná árangri.
Eitt námskeiðið þeirra heitir Dry or Die. Sem sagt námskeið um þurrfluguveiði. Hvernig er hægt að þýða þetta yfir á íslensku?
Þeir hlæja og kasta fram nokkrum hugmyndum. Niðurstaðan sem þeir eru sáttir við er: Þurrt eða burt. Þeir kasta þessu á milli sín. „Ef hann tekur ekki þurrt þá fer ég burt.“ Alveg hægt að vinna með þetta. Ekki jafn hljómgott og enskan en kannski hægt að venjast þessu.
En hvað þá með Match the hatch?
– Kastað á klakið
– Hittu á klakið
– Herma lífríkið
– Herma klakið
Fleiri tillögur fljúga en við erum sammála um að kastað á klakið sé sennilega best.
Þeir eyða miklum tíma í að skoða skordýr. Þau eru lykillinn.
Við ræðum þurrfluguveiði.
Hvað skiptir mestu máli?
Ef þið tækjuð eitt atriði út.
Presentation. Framsetningin fyrir fiskinn. Kastið þarf að vera gott og hitta á staðinn. Rekið í framhaldinu þarf svo að vera rétt þannig að fiskurinn sjái fluguna sem gómsætan og áhugaverðan bita. Hér liggja að baki djúpa pælingar og mikil uppsöfnuð reynsla. Ólafur segir að það sé mikilvægt að finna taktinn. „Þú kastar þurrflugu. Ert kannski alveg með réttu fluguna. Stærð og allt hundrað prósent. En fiskurinn sem þú varst að kasta á þessu fullkomna kasti átti aldrei séns. Hann saup mýfluguklasa á sama augnabliki og flugan þín lenti. Hann lokar augunum í augnablik og lætur sig síga niður tilbúinn að sjá næsta bita. Flugan þín fór framhjá án þess að hann gæti séð hana. Þú kastar aftur og hittir á taktinn hans. Hann sér fluguna og tekur hana. Þannig að þetta snýst ekki alltaf um að fara í gegnum allt fluguboxið. Kannski þarftu bara að finna taktinn.“
Við skoðum myndbönd úr Laxárdalnum, lögheimili stóru urriðanna og Caddisbræðra. Þeir eru reyndar óstaðsettir í hús í dalnum þar sem þeir eru stöðugt að leita að nýjum stöðum. Gjöfulustu veiðistaðirnir þeirra eru oft nánast í harða landi. Þar sem orkusparandi stórurriðar eru í miklu æti. „Margir veiðimenn eiga erfitt með að trúa hvað fiskurinn getur verið á grunnu vatni og nálægt landi.“
Hrafn tekur orðið. „Er fiskurinn að taka í yfirborðinu? Ef það kemur loftbóla eftir hann þá er hann pottþétt að taka eitthvað í yfirborðinu. Þá hefur skolturinn rofið yfirborðið. En oft er hann líka að taka aðeins undir yfirborðinu. Köstin skipta öllu máli. Ertu að hitta í fæðulínuna hjá honum? Ekki falskasta yfir fisk og ekki lína hann. Þannig að flugulínan fari yfir hann. Við viljum nota mjúka tauma til að fá rekið á froðuhraða. Þannig að flugan fljóti eðlilega og ekkert sé að toga í hana þannig að rekið verði úr takti við það sem hann er að éta.“
Fullt af nýjum orðum. Froðuhraði. Lína fiskinn. Fæðulína. Öll þessi nýju orð virka samt og þetta fær mann til að hugsa. Óli fer að hlæja. “Fólk sem kemur á námskeiðin til okkar er ekkert endilega að fara að slá í gegn í þurrfluguveiði í sumar. Við lítum líka á þetta sem skemmtun og afþreyingu. En það sitja alltaf eftir punktar sem fá þig til að hugsa næst þegar þú kemur að veiðistað þar sem að stórir urriðar eru á sveimi. Og það er mikill misskilningur að það sé bara hægt að veiða á þurrflugu þegar er logn og sól. Við veiðum á þurrflugu við allar aðstæður. Bæði í veðri og vatni.“
Þeir segjast vera hobby leiðsögumenn en hafa fært sig úr því að vera að sinna einstökum veiðimönnum yfir í það að setja saman sín holl. Til dæmis í Laxárdalnum, sem er eitt mesta stórurriðasvæði sem Ísland hefur upp á að bjóða. Þá selja þeir hollið og eru sjálfir að veiða en aðstoða alla í hollinu og um leið kenna
þeir veiðimönnum á veiðistaðina og þær aðferðir sem henta hverju sinni. Þeir eru með nokkur svona holl í sumar og fyrir þá sem hafa áhuga er einfaldast að senda tölvupóst á netfangið caddisbrothers@gmail.com. Já og að sama skapi eru þeir bræður með námskeiðin sín þar sem þeir taka á móti einstaklingum, hópum og fyrirtækjum.
Hrafn Ágústsson tekur varlega á vini sínum í Laxárdalnum. Þeir bræður verða með einskonar gestgjafaholl þar í sumar.
Þeir eru kenndir við caddisfluguna.
Þeir fara á meira flug þegar spurt er um hana. Hrafn er fyrri til. „Straumbytta heitir hún á íslensku og er stærsta flugan sem er að klekjast út í þessum ám. Hún er landnemi frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Þá fyrst fóru menn að verða varir við hana. Þær eru svo stórar að þetta eru prótínveisla fyrir urriðann. Hún syndir upp í yfirborðið þegar hún er tilbúin og losar sig þá við hylkið. Svo þarf hún að komast á þurrt til að geta hafið sig til flugs.“
Óli segir magnað að sjá þær synda að vöðlunum, losa sig við hylkið og klifra svo upp veiðimanninn áður en hún tekur flugið. „Ein ástæðan fyrir því hvað urriðinn hefur farið stækkandi í sumum ám er að öllum líkindum caddisflugan. Hún er ekki alls staðar en ef ég væri til dæmis með laxveiðiá þá myndi ég vonast til þess að hún næmi land í og við ána. Ég myndi jafnvel reyna að koma henni fyrir í ánni. Þetta er svo mikil búbót fyrir vatnakerfið.“
Þeir eru hafsjór af fróðleik og þeir kveikja á nýjum rofum. Tökkum sem maður vissi ekki að væru til. Þeir vilja nota mjúkar stangir og þá sérstaklega fyrir það að köstin eru oftar en ekki mjög stutt. Agnhaldslausar flugur er eitthvað sem þeir nota skilyrðislaust. Krókarnir í dag séu með þannig lögun að þeir haldi afskaplega vel. „Þeir fara líka miklu betur með fiskinn. Og þó að þú missir einn eða tvo. Það er ekki stóra málið. Svo er fínt að segja við félagana þegar þú kemur í hús. „Ég er sko með agnhaldslaust.“ „Það er kúl útskýring ef þú misstir þann stóra.“ Hrafn blikkar.
Hver dagur við árbakka er innlegg í reynslubankann. Urriði sem sérhæfir sig í að éta fleka. Fleka? „Já. Við höfum oft séð þetta. Þegar mýflugan hefur safnast á dautt vatn til dæmis þegar lægir að kvöldi þá höfum við séð fiska sem sérhæfa sig í að finna þessa fleka og éta þá. Einn munnbiti er kannski hundrað flugur. Þetta eru fiskar sem verða stórir. Sennilega þeir stærstu. Stórfiskurinn á það sameiginlegt að vera í því að éta klasa. Eru stöðugt að leita að þeim, þar sem nokkrar flugur er fastar saman.“
Hrafn minnir á górilluna. „Við skoðuðum myndband þar sem tvö körfuboltalið áttust við. Annað svartklætt og hitt í hvítu. Við áttum að telja hversu oft hvort lið dripplaði eða stakk boltanum niður. Maður vandaði sig og var tilbúinn með svarið. Spurningin var hins vegar; Sástu górilluna? Ha? Svo skoðaði maður myndbandið aftur með aðeins öðru hugarfari. Þá var svo greinilegt að maður í górillubúningi kom inn á völlinn og meira að segja veifaði höndunum. Fókusinn okkar var hins vegar bara á dripplinu. Sama er með urriðann. Hann er alveg fókusaður á það sem hann vill éta. Hann sér ekki górillurnar. Flugan þín getur verið górilla ef rekið er ekki rétt eða þú hittir ekki á taktinn hjá honum.“
Magnað.
Þá er það „Þurrt eða burt“.
Að lokum strákar. Eitthvað eitt sem skiptir mestu máli?
„Já. Gleyma því sem við erum búnir að vera að segja þér og fara bara að veiða.“ Þeir hlæja. „Stundum þarf maður einmitt bara að fara og veiða. Við leggjum mikið upp úr því að ræða lífsspekina í kringum veiðina. Hafa gaman og gera sitt. Besta veiðin er á kvöldin þegar líður að ljósaskiptum. Sumir vilja fara í hús og fá sér G og T. Þá er iðulega besti tíminn. En við höfum oft bent fólki á að seinka G og T tímanum og ná töfrastundinni. Sofa svo frekar bara aðeins lengur að morgni.“
Þeir minna áheyrendur sína á að veiðimaðurinn er rándýr og það getur oft verið gott fyrir rándýrið að lesa aðstæður. Ekki vaða bara út í og byrja að kasta og kasta og kasta. Frekar anda aðeins að sér stöðunni, stemmingunni og því sem er að gerast. Sjá jafnvel fiskinn vaka eða velta sér.
Texti: Eggert Skúlason

