Simon á sínum gömlu heimaslóðum í Idaho í Bandaríkjunum, þar sem Rio er með aðsetur.
Hér kastar hann fyrir silung.
Þessi grein birtist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024.
Simon Gawesworth
Allir fluguveiðimenn þekkja vörumerkið Rio þegar kemur að flugulínum. Simon Gawesworth er einn af þeim sem skapað hafa þá velgengni sem Rio hefur átt að fagna. Hann var einn af lykilmönnum í þróun og prófunum á Rio línunum í tæpan aldarfjórðung. Rio Products er hluti af Far Bank fyrirtækjasamstæðunni sem meðal annars fóstrar Sage og Redington.
Simon er fæddur og uppalinn í Bretlandi, í nágrenni Kent og lærði ungur að kasta flugu. Pabbi hans, sem var lærður flugukastkennari, kenndi honum undirstöðuatriðin þegar hann var átta ára gamall og verandi ungur drengur vakti hann mikla athygli þegar hann sigraði í kastkeppni sem hann tók þátt í á bæjarhátíð í Kent. Þetta var upphafið að keppnisferli Simons. Hann tók þátt í keppnum víðsvegar í Bretlandi og gat sér gott orð fyrir afburða tækni.
Í framhaldinu af keppnisferli sínum hóf Simon að kenna fluguköst. Hann hefur ferðast heiminn á enda að kenna áhugasömum veiðimönnum að ná tökum á flugustöngum. Sérstaklega er hann þekktur fyrir Speyköst hvort sem er með ein- eða tvíhendu.
Rétt fyrir aldamót réði svo Jim Vincent, sem þá var einn af eigendum Rio Products, Simon til Rio og varð það upphafið að farsælu samstarfi sem veiðimenn víða um heim hafa notið góðs af.
Rokkstjarna í fluguveiði
Simon er grannur og kvikur. Stendur á sextugu og er fluttur aftur heim til Bretlands, eftir búsetu í Idaho í Bandaríkjunum í aldarfjórðung, þar sem Rio er með höfuðstöðvar. Hann hefur tekið við nýju starfi hjá Far Bank samstæðunni og er nú yfirmaður viðburða og fræðslu. Simon er einn af stóru áhrifavöldunum í fluguveiði í heiminum síðustu áratugi og mætti án efa skipa honum á stall með rokkstjörnum ef við værum að ræða tónlist.
„Já. Auðvitað sakna ég Rio en þetta starf er líka mjög skemmtilegt og ég er minna bundinn við skrifstofuna og hitti fleira fólk. Það var alltaf mikið ævintýri að fara með nýjar línur og prófa þær til dæmis við Bahamas og víðar.“ Svarar hann þegar hann er spurður hvort hann sakni Rio. Sá söknuður er þó yfirstíganlegur því að nýja starfið er „afskaplega spennandi“ segir hann með glampa í augum.
Það gefur augaleið að maður með slíkan starfsferil er ástríðuveiðimaður. Það þarf ekki að sitja lengi með Simon til að skynja hversu góður kennari hann er. Hlýr, kurteis og stutt í breska húmorinn. Skemmtileg blanda. Við ræðum flugulínur.
Glæsilegur regnbogi fær frelsið á ný eftir stutt kynni af Simon.
Hugsaðu aftur á bak
„Þetta byrjar allt á flugunni. Við viljum geta komið henni þangað sem hún er líkleg til að veiða og með þeim hætti að hún virki. Ég hugsa þetta aftur á bak. Flugulínan kemur flugunni á staðinn og við það notum við stöngina. Ertu að kasta lítilli þurrflugu eða þyngdri túbu. Það er sitt hvor leikurinn.“ Hann brosir.
Hvað þarf að hafa í huga þegar maður parar saman flugustöng og flugulínu?
„Fyrst eru það aðstæðurnar sem þú ert að fara að veiða í. Ef þú ert að sækjast eftir mjúkri og ljúflegri lendingu flugunnar, í til dæmis mjög hægu og rólegu vatni, þá velur þú taum og línu sem hentar þeim aðstæðum. Þar horfum við til flugulínu sem er frammjókkandi og tryggir að smáflugan lendir eins mjúklega og hægt er.
Ef þú vilt nota þyngda túbu eða ert að veiða í miklu roki þá myndi þessi lína sem þú ert að nota fyrir smáfluguna einfaldlega ekki skila árangri. Vindurinn myndi feykja henni þannig að kastið verður erfitt og jafnvel ómögulegt að ná þeirri nálgun sem veiðimaðurinn sækist eftir. Við þessar aðstæður viltu nota línu sem er minna frammjókkandi og miklu þykkari í endann. Þetta er samspil línu, flugu og aðstæðna. Það er erfitt að ætla að skipta úr smáflugu númer 14 eða 16 yfir þyngda Frances túbu til dæmis. Þess vegna þurfum við að geta tekist á við ólíkar aðstæður og þá er nauðsynlegt að eiga línur sem henta þeim veiðiskap sem við stundum.“
Ef við horfum til baka Simon. Hversu mikil þróun hefur átt sér stað? Hin fullkomna flugulína um aldamótin miðað við línurnar í dag?
„Þetta var bæði mikið lærdómsferli og um leið uppfræðsla. Þegar ég byrjaði þá voru öll fyrirtæki að framleiða flotlínur og Cortland 444 var það sem allir notuðu. Fæstir skyldu flugulínur og eðli þeirra. Jim Vincent kenndi mér allt um flugulínur og hann var virkur í því að uppfræða söluaðilana, verslunarfólkið og almenning. Það tók svona áratug og þá voru söluaðilar og neytendur farnir að skilja betur hvað þurfti til að para saman flugustöng og línu til að geta fengið það besta út úr veiðiupplifuninni. Þegar þessi vitneskja var orðin almennari þá var hægt að fara í tæknilegri hluti. Ólíka kjarna, kápur og húðun og öll þessi atriði sem skipta svo miklu máli þegar valin er flugulína.“
Logn, rok og aftur logn
Simon tekur Veiðihornið sem dæmi. „Flugulína er ekki bara hilluvara. Sumir veiðimenn hafa fengið fræðslu og geta gengið að þeirri línu sem þeir ætla að kaupa. Þekkja þær aðstæður sem þeir eru að fara í. Ég hef átt mikil samskipti við Óla og Maríu og þeirra starfsfólk. Þannig geta þau uppfrætt og hjálpað til við að velja réttu línuna sem hentar best þeim aðstæðum sem viðskiptavinurinn er að fara að takast á við. Það eru mikil verðmæti í þessu. Margir veiðimenn eru ekkert mikið að spá í línur og þurfa þessa aðstoð þegar kemur að valinu.“
Simon tekur dæmi þar sem þú ert að veiða meðalstóra á. Það er logn og þú velur að kasta smáflugum. Þær þurfa að lenda ljúflega á vatnsyfirborðinu þannig aðeins vatnsdropi stígi upp þegar flugan lendir á nákvæmlega þeim stað sem þú vilt til að tryggja rétt rek inn í sjónlínu fisksins. Svo fer skyndilega að blása og auðvitað er vindurinn beint í andlitið á þér. Fiskurinn hefur ekki litið við smáflugunum. Þú ert fisklaus og það er mikið af fiski á staðnum sem þú ert að veiða. Það hvessir enn. Tommu Frances verður fyrir valinu. Kastið bara virkar ekki. Þú nærð ekki í gegnum vindinn með línunni sem hentaði svo vel fyrir smáfluguna. Þú skiptir um spólu í hjólinu eða tekur stöng með annarri linu. Á þeirri spólu, eða stöng er lína sem hentar til að kasta í gegnum vindinn og koma túbunni þangað sem hún getur veitt. Síðar um kvöldið ertu aftur kominn á sama stað og það er komið stafa logn. Þú setur ekki smáfluguna á þessa sömu línu, þó að þú lengir tauminn. Splassið af línunni verður allt of mikið. Þú skiptir aftur yfir í línuna sem er frammjókkandi og leggur fluguna ljúflega fyrir fiskinn með engu splassi. Hann tekur loksins. Deginum er reddað.
Hvað endast flugulínur lengi?
En Simon. Hvað endast flugulínur lengi? Hversu mörg sumur eða veiðiferðir?
„Við miðum við klukkustundir. Sérfræðingarnir okkar í rannsóknarstofunum sem eru stöðugt að prófa, að spóla þeim inn, beygja og bleyta og gera allt það sem flugulína lendir í, segja að viðmiðið sé í kringum fjögur hundruð klukkustundir í notkun. Þannig að ef þú veiðir með sömu línunni dag eftir dag og alltaf í tíu klukkustundir þá myndi hún endast í um það bil fjörutíu daga. Það má hugsa þetta eins og bíldekk. Dekkið þolir í raun bara ákveðinn kílómetrafjölda þegar upp er staðið. Sumir keyra lítið og þá duga dekkin árum saman á meðan að aðrir keyra mikið og spæna upp dekkin.
Fjögur hundruð klukkustundir er viðmið. Ef veiðimaður passar að þrífa línuna og hugsar vel um hana er hægt að lengja líf hennar jafnvel upp í sex hundruð klukkustundir.“
Hvernig er best að ganga um línuna til að lengja líftíma?
„Tökum sem dæmi. Þú ert að veiða í Þingvallavatni og þegar þú dregur línuna inn lendir hún á jörðinni og óhreinindi, sandur og mold setjast á línuna. Ég mæli með því að þegar menn eru að hætta að þurrka þessi óhreinindi af línunni. Það er alveg nóg að nota blautan klút og tryggja að línan sé laus við þessi óhreinindi, áður en þú spólar línunni inn og setur hjólið á sinn stað. Ef þú stendur úti í á eða vatni og línan leggst í vatnið þá eru minni líkur á að óhreinindi setjist í hana. Þegar tímabilinu lýkur mæli ég með að menn þrífi línuna með með þar til gerðum klútum. Það er engin þörf á að taka línuna af hjólinu eða eitthvað slíkt. Bara spóla henni inn eftir að hafa þrifið hana og þá verður hún tilbúin næsta sumar. Flest hjól í dag eru með svo sveran ás sem línunni er spólað inn á að hjólin fara ágætlega með línuna. Þessu var öðru vísi farið hér áður fyrr þegar ásinn var mjór og ekki sverari en fingur. Það fór miklu verr með línurnar.“
Enn betri flugulínur í framtíðinni
Eiga flugulínur framtíðarinnar eftir að verða enn betri?
„Örugglega. En sú þróun mun öllu byggja á tækniframförum og nýjum efnum. Það er ábyggilega hægt að hanna kápu sem er endingarbetri eða nýja útgáfu af plasti sem gefur nýja eiginleika eða silikon húð á línuna sem gerir hana enn sleipari og skýtur henni lengra. Við erum takmörkuð þegar kemur að eðlisfræðinni. Ef að línurnar verða þynnri þá missa þær þyngdina og verður erfiðara að kasta þeim. En já klárlega mun framtíðarhönnun á flugulínum koma í gegnum tækniframfarir varðandi þau efni sem við erum að nota.“
Hvað með litina á flugulínum? Eru fiskar viðkvæmir fyrir litunum?
Simon brosir og hugsar sig aðeins um. „Ég held að leiðsögumennirnir séu mun viðkvæmari fyrir litunum en fiskurinn. Mín reynsla segir mér að það er afar sjaldgæft að lenda í aðstæðum þar sem flugulína eða liturinn á henni er að trufla fiskinn. Auðvitað getur það gerst. Ef menn eru að veiða andstreymis þá skiptir framsetningin meira máli en liturinn. Oft er það besta ráðið að lengja tauminn þannig að þú sért ekki að kasta línunni yfir fiskinn. Það er kannski lykilatriðið frekar en liturinn.“
Ólíkar aldurssamsetningar
Í sínu nýja hlutverki fyrir móðurfélagið Far Bank er Simon að hitta veiðimenn víða að úr heiminum. Hann segir ótrúlegan mun á aldurssamsetningu veiðimanna sem sækja viðburði eins og veiðisýningar. Hann tekur New York sem dæmi en þar segir hann að meðal aldur þeirra sem mæti sé ríflega sjötíu ár. Allt annað er uppi á teningnum til dæmis í Denver í Colorado. Þar er megnið af fólkinu sem hann hittir á þrítugsaldri og þar er fluguveiði ótrúlega vinsælt sport. Hann telur skýringuna liggja í því að Colorado sé meira útivistarsvæði en til að mynda New York fylki. Mikið sé um skíðaiðkun í Colorado og þegar snjórinn fer á vorin þá snúa margir sér að fluguveiðinni.
En ef við horfum til Englands. Þá segir Simon að hann sé nýlega fluttur aftur til Englands en fyrsta tilfinning er að aldurssamsetningin þar falli mitt á milli þess sem hann var að lýsa í Denver og New York. Margt fólk á miðjum aldri stundi stangveiði en minni áhugi hjá þeim sem yngri eru.
Sem veiðimaður sækist Simon eftir áskorunum og krefjandi veiðiskap. Þar nefnir hann sérstaklega að kasta á urriða sem sé að koma upp eftir flugum. „Finna réttu fluguna og geta lagt hana fyrir hann þannig að hann taki hana. Það sama gildir um að kasta á Permit. Ég hef mest gaman af þessum áskorunum sem geta farið á báða vegu.“
Hann á enn eftir að prófa nokkra hluti sem hann dreymir um. Komast í alvöru frumskógaveiði. Til dæmis í Brasilíu að veiða Dorado eða Peacock bass eða að fara til Oman og veiða Queen fish. „Ef ég ætti hins vegar að velja eitthvað sem ég gæti gert reglulega og einbeitt mér að, þá væri það að veiða urriða með þurrflugu og að hitcha fyrir lax. Það er svo stórkostlegt sport.“
Argentína er einn af fjölmörgum stöðum í heiminum þar sem Simon hefur veitt. Þetta er verðlaunabirtingur.
Hvaða línur notar Simon á Íslandi?
Þú hefur veitt á Íslandi. Hvernig upplifun hefur þú átt hér?
„Ég þarf að koma oftar,“ hlær hann. „Ég kom í fyrra og veiddi Norðurá og það var í annað skiptið sem ég veiddi hana. Ég hef líka nokkrum sinnum veitt ION svæðið á Þingvallavatni. Þessar ferðir hafa verið alveg frábærar og ég vona að ég eigi eftir að hafa fleiri tækifæri til að koma til Íslands. Ef Óli í Veiðihorninu hringir í mig og biður mig að koma til að kenna eða flytja fyrirlestur, er ég fljótur að pakka.“ Við brosum báðir og vitum að Óli les þetta.
En þá er það stóra spurningin. Hvaða línur velur þú þegar þú ert að veiða á Íslandi?
„Ef ég er að veiða í á þá myndi ég velja Single handed Spey línu fyrir einhenduna. Það er þægilegasta lína sem ég held að hafi verið framleidd fyrir einhendur. Hún leggur fluguna vel og þar sem hún er frammjókkandi er mjög auðvelt að kasta henni.
Fyrir tvíhenduna myndi ég velja Light scandi launch. Hún er vel ballanseruð og leggst ljúflega. Hún er að sama skapi frammjókkandi og virkaði mjög vel fyrir mig.
Þegar ég fer í Þingvallavatn þar sem maður þarf að kasta frekar langt þá nota ég Outbound short línuna og hún er hönnuð fyrir þessar aðstæður. Löng köst í stöðuvatni.“
Við kveðjum Simon með virktum og við skulum hugsa til hans næst þegar við veljum flugulínu. Við hvaða aðstæður erum við að fara að veiða? Það er stóra spurningin. Það eru til línur sem henta öllum þessum aðstæðum.
Frá heimsókn Simon á Rio hátíð Veiðihornsins.
Texti: Eggert Skúlason

