Erla Guðrún Emilsdóttir fékk fyrsta laxinn á fluguna Unnamed Beauty. Það gerðist í Vatnsdalsá í vikunni og listamaðurinn sem hannaði fluguna upphaflega með vatnslitum var á staðnum. Það gerði þetta enn skemmtilegra. Ljósmynd/Erla Guðrún
Erla Guðrún Emilsdóttir lenti í skemmtilegu ævintýri í veiðistaðnum Smiðshyl í Vatnsdalsá í vikunni. Hún kom að hylnum ásamt leiðsögumanninum sínum, sem var enginn annar en Björn K. Rúnarsson, sem jafnframt er leigutaki árinnar.
Erla Guðrún var ákveðin í að kasta flugunni Unnamed Beauty sem hún hafði heyrt af á Sporðaköstum og fór í framhaldi af því í Veiðihornið og keypti fluguna. Sporðaköst birtu frétt um fluguna Unnamed Beauty og er tengill á þá frásögn hér að neðan.
„Flugan sem ég keypti var frekar stór en þegar ég kom í Vatnsdalinn þá voru mér gefnar nokkrar smærri. Ég fékk þrjár að gjöf og ákvað að nota þá minnstu. Mér fannst svo tilvalið að nota þessa flugu, þegar ég var komin á upphalds veiðistaðinn minn í uppáhalds veiðiánni minni og flugan frá uppáhalds listamanninum mínum,“ sagði Erla Guðrún í samtali við Sporðaköst. Hún kom að Smiðshyl með manninum sínum, honum Jóni Sigurði Helgasyni og leiðsögumaður var enginn annar en sjálfur leigutakinn, Björn K. Rúnarsson. Hún veiddi hylinn nánast á enda og var að hætta þegar, „svo bara kom þessi elska, 63 sentímetra fallegur lax og tók fluguna.“
Erla Guðrún viðurkennir að hana langaði í verkið eftir listamanninn. Þessi lax náðist og henni fannst mjög vænt um að fyrsti laxinn á fluguna Unnamed Beauty skyldi koma einmitt í Vatnsdalnum sem hún veit að er uppáhaldsá Sigurðar Árna listamanns sem upphaflega teiknaði fluguna.
Það var skemmtileg tilviljun að Sigurður Árni var staddur í Vatnsdal þegar Erla Guðrún setti í og landaði fyrsta laxinum. Þegar hún kom í veiðihúsið um kvöldið labbaði hún upp að Sigga og sagði; „Þetta er komið.“
Eins og við sögðum frá í lok apríl, hafði Sigurður Árni Sigurðsson myndlistamaður teiknað fluguna með vatnslitum og var hún hugarburður hans. Það var svo Ólafur Vigfússon sem tók keflið og sendi mynd af listaverkinu á Niklas Dahlin sem er einn fremsti fluguhönnuður Shadow flies í Thailandi. Niklas hnýtti prufu og líkaði hún vel. Ráðist var í að framleiða fluguna eftir að samþykki listamannsins lá fyrir.

Svona líka vel tekinn. 63 sentímetra smálax , hængur féll fyrir Unnamed Beauty. Ljósmynd/Erla Guðrún
Í tilefni af tilurð flugunnar og komu hennar á flugubarinn í Veiðihorninu ræddu Sporðaköst við listamanninn. „Sá sem veiðir fyrsta laxinn á þessa flugu og segir okkur frá því mun fá prent af verkinu, innrammað. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig það mun ganga. Auðvitað verður það skemmtilegt augnablik að setja þessa flugu undir þegar maður mætir í Vatnsdalinn og kasta henni fyrir fisk,“ sagði Sigurður Árni í samtali við Sporðaköst af þessu tilefni.
Björn K. Rúnarsson leiðsögumaður og leigutaki aðstoðar við að losa fluguna úr laxinum áður en honum var sleppt aftur. Ljósmynd/Erla Guðrún
Nú er búið að vígja fluguna og taka á hana nokkra laxa. Það er staðfest að lax Erlu Guðrúnar er sá fyrsti en fleiri hafa veiðst síðan. „Mér fannst þetta mjög skemmtilegt að þetta skyldi gerast hér í uppáhalds ánni minni. Það er svo gott að vera hérna og þjónustan er öll upp á tíu og ég get ekki hætt að hrósa Bjössa fyrir hvað hann gerir þetta allt vel,“ sagði Erla Guðrún.
Það var skálað um kvöldið, bæði fyrir fyrsta laxinum á „hugarfluguna“ hans Sigga og ekki síður fyrir listamanninum. Fyrsti laxinn hefur verið bókaður á Unnamed Bauty. Erla Guðrún viðurkennir að hún hafi reyndar talað um fluguna sem Siggann. Það er líka skemmtilegt nafn og flugulegt. En hitt stendur.
Fyrsta laxinum fagnað! Guðrún Emilsdóttir, veiðimaður og Sigurður Árni lista- og veiðimaður með hugarfluguna fallegu sem hefur reynst gjöful í fyrstu köstunum. Ljósmynd/Erla GuðrúnNú er hringnum lokað. Fyrst var teiknuð fluga. Hún var svo hnýtt og framleidd. Erla Guðrún kastaði svo flugunni fyrir lax og hann tók hana og var landað. Þarna er komið nýtt tól í verkfærakistuna
Fréttin birtist fyrst á Sporðaköstum á mbl.is.
Sjá einnig á mbl.is: „Hugarflugan“ sem lifnaði við
Eggert Skúlason
Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is


