Landaði þeim fyrsta á Unnamed Beauty

Erla Guðrún Emilsdóttir fékk fyrsta laxinn á fluguna Unnamed Beauty. Það gerðist í Vatnsdalsá í vikunni og listamaðurinn sem hannaði fluguna upphaflega með vatnslitum var á staðnum. Það gerði þetta enn skemmtilegra. Ljósmynd/Erla Guðrún

Erla Guðrún Em­ils­dótt­ir lenti í skemmti­legu æv­in­týri í veiðistaðnum Smiðshyl í Vatns­dalsá í vik­unni. Hún kom að hyln­um ásamt leiðsögu­mann­in­um sín­um, sem var eng­inn ann­ar en Björn K. Rún­ars­son, sem jafn­framt er leigutaki ár­inn­ar.

Erla Guðrún var ákveðin í að kasta flug­unni Unna­med Beauty sem hún hafði heyrt af á Sporðaköst­um og fór í fram­haldi af því í Veiðihornið og keypti flug­una. Sporðaköst birtu frétt um flug­una Unna­med Beauty og er teng­ill á þá frá­sögn hér að neðan.
 
„Flug­an sem ég keypti var frek­ar stór en þegar ég kom í Vatns­dal­inn þá voru mér gefn­ar nokkr­ar smærri. Ég fékk þrjár að gjöf og ákvað að nota þá minnstu. Mér fannst svo til­valið að nota þessa flugu, þegar ég var kom­in á upp­halds veiðistaðinn minn í upp­á­halds veiðiánni minni og flug­an frá upp­á­halds lista­mann­in­um mín­um,“ sagði Erla Guðrún í sam­tali við Sporðaköst. Hún kom að Smiðshyl með mann­in­um sín­um, hon­um Jóni Sig­urði Helga­syni og leiðsögumaður var eng­inn ann­ar en sjálf­ur leigutak­inn, Björn K. Rún­ars­son. Hún veiddi hyl­inn nán­ast á enda og var að hætta þegar, „svo bara kom þessi elska, 63 sentí­metra fal­leg­ur lax og tók flug­una.“
 
Erla Guðrún viður­kenn­ir að hana langaði í verkið eft­ir lista­mann­inn. Þessi lax náðist og henni fannst mjög vænt um að fyrsti lax­inn á flug­una Unna­med Beauty skyldi koma ein­mitt í Vatns­daln­um sem hún veit að er upp­á­haldsá Sig­urðar Árna lista­manns sem upp­haf­lega teiknaði flug­una.
 
Það var skemmti­leg til­vilj­un að Sig­urður Árni var stadd­ur í Vatns­dal þegar Erla Guðrún setti í og landaði fyrsta lax­in­um. Þegar hún kom í veiðihúsið um kvöldið labbaði hún upp að Sigga og sagði; „Þetta er komið.“
 
Eins og við sögðum frá í lok apríl, hafði Sig­urður Árni Sig­urðsson mynd­listamaður teiknað flug­una með vatns­lit­um og var hún hug­ar­burður hans. Það var svo Ólaf­ur Vig­fús­son sem tók keflið og sendi mynd af lista­verk­inu á Niklas Dahlin sem er einn fremsti flugu­hönnuður Shadow flies í Thailandi. Niklas hnýtti prufu og líkaði hún vel. Ráðist var í að fram­leiða flug­una eft­ir að samþykki lista­manns­ins lá fyr­ir.
 
Svona líka vel tek­inn. 63 sentí­metra smá­lax , hæng­ur féll fyr­ir Unna­med Beauty. Ljós­mynd/​Erla Guðrún
 
Í til­efni af til­urð flug­unn­ar og komu henn­ar á flugu­bar­inn í Veiðihorn­inu ræddu Sporðaköst við lista­mann­inn. „Sá sem veiðir fyrsta lax­inn á þessa flugu og seg­ir okk­ur frá því mun fá prent af verk­inu, inn­rammað. Það verður spenn­andi að fylgj­ast með hvernig það mun ganga. Auðvitað verður það skemmti­legt augna­blik að setja þessa flugu und­ir þegar maður mæt­ir í Vatns­dal­inn og kasta henni fyr­ir fisk,“ sagði Sig­urður Árni í sam­tali við Sporðaköst af þessu til­efni.
 

Björn K. Rún­ars­son leiðsögumaður og leigutaki aðstoðar við að losa flug­una úr lax­in­um áður en hon­um var sleppt aft­ur. Ljós­mynd/​Erla Guðrún

Nú er búið að vígja flug­una og taka á hana nokkra laxa. Það er staðfest að lax Erlu Guðrún­ar er sá fyrsti en fleiri hafa veiðst síðan. „Mér fannst þetta mjög skemmti­legt að þetta skyldi ger­ast hér í upp­á­halds ánni minni. Það er svo gott að vera hérna og þjón­ust­an er öll upp á tíu og ég get ekki hætt að hrósa Bjössa fyr­ir hvað hann ger­ir þetta allt vel,“ sagði Erla Guðrún.
 
Það var skálað um kvöldið, bæði fyr­ir fyrsta lax­in­um á „hug­ar­flug­una“ hans Sigga og ekki síður fyr­ir lista­mann­in­um. Fyrsti lax­inn hef­ur verið bókaður á Unna­med Bauty. Erla Guðrún viður­kenn­ir að hún hafi reynd­ar talað um flug­una sem Sigg­ann. Það er líka skemmti­legt nafn og flugu­legt. En hitt stend­ur.
 
Fyrsta laxinum fagnað! Guðrún Emilsdóttir, veiðimaður og Sigurður Árni  lista- og veiðimaður með hugarfluguna fallegu sem hefur reynst gjöful í fyrstu köstunum. Ljósmynd/Erla Guðrún
 
Nú er hringn­um lokað. Fyrst var teiknuð fluga. Hún var svo hnýtt og fram­leidd. Erla Guðrún kastaði svo flug­unni fyr­ir lax og hann tók hana og var landað. Þarna er komið nýtt tól í verk­færa­k­ist­una
 
Fréttin birtist fyrst á Sporðaköstum á mbl.is.
 
Sjá einnig á mbl.is:  „Hugarflugan“ sem lifnaði við
 

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is