Veiðitúrar eru mínir sálfræðitímar

Arnar trommar í Brixton Academy með Of Monsters and Men.
Við þetta tækifæri leitaði hugurinn til Jöklu.
Ljósmynd: Shane Timm

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024. 

Arnar trommari Of Monsters and Men

Veiðidella eða veiðibakterían er ágengt fyrirbæri sem margir sem lesa þetta blað þekkja. Hún getur heltekið okkur á köflum og þá er erfitt að ráða við hvert hugurinn leitar. Ekki er hægt að mæla veiðidellu, en mörg dæmi eru til um hvað hún getur verið áleitin.

Einn veturinn voru Of Monsters and Men, sú stórgóða og heimsþekkta hljómsveit að spila í Brixton Academy í London sem er einn af þekktari tónleikastöðum þar í borg. Það var nokkuð liðið á tónleikana og hitinn í höllinni var mikill. Æstir aðdáendur tóku undir með í hittaranum Little Talks. Andrúmsloftið var rafmagnað og tónleikarnir að ná hápunkti sínum.

Arnar Rósenkranz Hilmarsson, trymbill fór hamförum. Sveittur á hlýrabol og á þessum tíma með sítt hár. „Það er svo skrítið að í þessu lagi flaut ég í burtu.

Sindri frændi og Arnar Rósenkranz með Hæng Rósenkranz eins og þeir kölluðu frændlaxinn. Þessi glæsilegir fiskur veiddist í Fossá.

Ég man að fyrst hugsaði ég aðeins um hvað yrði að borða eftir tónleikana. Hvort það yrði pizza aftur eða eitthvað annað. Svo var ég allt í einu farinn að hugsa um Jöklu og hvaða veiðistað ég myndi byrja á ef ég væri að mæta þangað núna. Ég átti svolítið erfitt með að velja mér stað. Þeir eru svo margir spennandi. Sennilega færi ég á Teigsbrotið. Hitcha svona dágóðan Sunray. Nýr fiskur á brotinu. Straumurinn þungur en samt hægur. Ég hugsaði um fegurðina og litinn á vatninu. Þennan magnaða kokteil sem hún býr til í landinu fyrir austan,“ upplýsir Arnar og viðurkennir að þetta geti gerst þegar menn eru búnir að vera lengi að túra og trommurnar eru orðnar hluti af honum.

„En þetta er rosalega gefandi. Maður nær einhvern veginn augnsambandi við salinn og ég hef fullt af tíma til að horfa yfir mannhafið og pæla í fólki. En það er alveg vandamál að ég er oft að hugsa um eitthvað annað á meðan að ég er að tromma. Ég þarf stundum að tosa mig til baka úr þessu hugarflugi. Heyrðu vertu hérna. Vertu á staðnum. En þetta er náttúrulega helst að gerast þegar maður er búinn að vera á löngum túrum og er svolítið kominn á Autopilot.“

Hávaðinn var ærandi og áhorfendum hefur síst dottið í hug að trommarinn væri í hugaferðalagi til Íslands, þar sem hann barði húðir og diska af sama krafti og venjulega.

Fer oftast út í að semja flugur

Arnar er kappsfullur veiðimaður og fer eins oft og hann getur. Laxinn er honum ofar í huga en silungurinn, en hann sækist í að veiða þetta allt saman. Fluguhnýtingar liggja vel fyrir honum og hann nýtur þess að eyða tíma fyrir framan væsinn þegar tækifæri gefst. „Ég tek þetta svona í skorpum. Það er ákveðin núvitund í þessu og ég geri líka mikið af því að veiða á flugur sem ég hnýti sjálfur. En annars veiði ég á allt og er til í að prófa allar útgáfur til að finna það sem virkar hverju sinni. Þegar ég er að hnýta enda ég oftast á að fara í einhverjar tilraunir. Það er tónlistamaðurinn í mér. Maður þarf að semja flugur til að nenna að sitja við þetta. Ég hnýti líka alltaf það sem ég veit að virkar og mig vantar. En skemmtilegast er að semja sjálfur og gera þá einhverjar smá breytingar eða fara í alveg nýjar útfærslur. Sumt af þessu virkar og annað ekki.

Draumurinn er alltaf að fá fiskinn upp í yfirborðið með smáflugu. Mér finnst skemmtilegast að veiða á flotlínu með langan taum og ég pæli mikið í köstunum og hvernig flugan berst að fiskinum. Ef það virkar ekki þá nota allt hitt líka. Ég er bara sá gæi og geri allt til að fá fiskinn til að taka. Ég elska líka að veiða með litlum kónum. Það virkar bara svo vel.“

Veiðisaga og þroski Arnars er dæmigerð. Byrjaði í vatnaveiði með flot og maðk og spún. Hilmar Ægir Þórarinsson, pabbi Arnars fór á fluguhnýtingarnámskeið og tók unglinginn, á þeim tíma með. Eftir það fóru þeir meira yfir í fluguna.

En hvaðan kemur Rósenkranz nafnið þá?

„Það kemur frá móður minni, Birnu Guðmundsdóttur.  Afi, sem líka var trommari hét Guðmundur Rósenkranz Einarsson. Hann trommaði út um allt og var meðal annars í tríói Ólafs Stephensen.“

Segiði svo að tónlistarhæfileikar erfist ekki milli kynslóða.

Lax í Deildará tekur með látum. Þetta varð mikið ævintýri. – Flugulínan slitnaði hjá Arnari og þessi var spilaður inn með höndunum.

Það hafðist. Stórlax spilaður á höndum fer í minningabankann.

Heimsótti Sage á tónleikaferð

Verandi að ferðast um heiminn og halda tónleika gerir það að verkum að hægt er að búa til alls konar tækifæri. Arnar gerði það einmitt þegar hljómsveitin var að spila í Seattle í Bandaríkjunum. „Ég hafði heyrt af því að Sage verksmiðjurnar væru bara rétt fyrir utan borgina og mig langaði að kíkja á þá. Ég prófaði að senda þeim skilaboð á Instagram en þekkti þá ekki neitt. Alex Blouin svaraði okkur og það leiddi til þess að ég og Brynjar gítarleikari kíktum í heimsókn til þeirra í Bainbridge í verksmiðjurnar. Það var mjög áhugavert og gaman að sjá hvað þetta var miklu minna en ég átti von á. Þetta var persónulegra en ég hafði ímyndað mér en það er líka hluti af dæminu þeirra. Allt handunnið og gert á staðnum. Við hittum Peter Knox sem er yfirhönnuður og hann sýndi okkur allt ferlið. Mér fannst líka merkilegt að sjá hversu mikil vinna er á bak við þetta og hreinlega vísindi. Peter sýndi okkur hvernig þeir prófa hina ýmsu hluta á hverri veiðistöng. Hann setti part tvö af stöng í þar til gerða pressu og gerði á þeim hluta álagspróf. Það var ótrúlegt að sjá hversu mikið þessi hluti stangarinnar þoldi. Þetta er næst þykkasti hluti hennar og hann fór bara í fullkomna u-sveigju.“

Arnari fannst þetta mögnuð upplifun og hann fór ekki tómhentur frá Bainbridge. Hann festi kaup á Sage Trout LL fyrir línu þrjú. Einkunnin er þessi; „Geggjað prik.“ Arnar og Brynjar buðu Sage mönnum á tónleika Of Monsters and Men daginn eftir og var það boð þegið með þökkum enda kom í ljós að þar var að finna mikla aðdáendur sveitarinnar. Peter Knox og félagar fengu VIP meðhöndlun á pari við það sem gerst hafði í Bainbridge.

Hann hefur sterkar taugar til Aðaldalsins. Glæsileg hrygna fer út í aftur eftir myndatöku.

Náð að smita alla í bandinu

Veiðidella Arnars hefur leitt til þess að hann hefur náð að smita alla strákana, eins og hann orðar það. „Nanna hefur komið með okkur í eina ferð en Brynjar, Ragnar og Kristján eru allir komnir með áhuga. Við fórum öll saman í Laugardalsá fyrir vestan. Það gekk allt í lagi.  Vissulega var rólegt í laxinum en við einbeittum okkur í staðinn að urriðanum og það var nóg af honum. Við fengum gott veður og það er hvergi betra að vera en í Djúpinu í góðu veðri. Allir fengu fisk og þetta var frábær ferð.“

Hefðbundið sumar hjá trommaranum, ef tónlistin er ekki að skemma of mikið fyrir honum, er ávísun á veiði í Jöklu, Laxá í Aðaldal og Laxá í Leirársveit, svo einhverjar séu nefndar. Þær eru raunar miklu fleiri árnar en allt ræðst þetta ofurlítið af þeim tíma sem er úr að spila. Síðustu ár hefur Arnar byrjað í Brennunni í Borgarfirði og Laxá í Leirársveit. Stutt að fara og margar stangir. Hann og félagar hans hafa sett saman hóp sem fer árlega snemma í Leirársveitina tímabils. „Jökla er alltaf á dagskránni og hún á mig dálítið núna. Mér finnst hún hreinlega frábær. Fegurðin í landslaginu, liturinn á ánni, stórir fiskar, mikið vatn og tvíhendur.“

Hann segist líka kominn með Aðaldalinn aðeins á heilann og er ekki sá fyrsti eða sá síðasti sem fellur fyrir álögum Big Laxá. „Haustin þar eru svo mögnuð. Það er sérstök rómantík í loftinu þarna sem togar í mig. Grasi grónir bakkar, kyrrðin og þetta þunga hæga rennsli.“

Einhver flottasti fiskur sem hann hefur veitt í Aðaldalnum var 87 sentímetra hrygna í Grundarkvörn í Laxá. Svakalega þykk og eðal eintak af Atlantshafslaxi. Þar missti hann líka stórlax í fyrrahaust. Eftir tuttugu mínútna átök fór sá fiskur fyrir grjót og sleit. „Ótrúlega skemmtilegur veiðistaður.

Aðaldalurinn hefur verið svo góður við okkur frændur að sennilega erum við komnir með óraunhæfar væntingar til hans. Það er eitthvað sérstakt í andrúmsloftinu þarna. Mér líður alltaf eins og að þessir stóru fiskar séu alveg við það að fara að taka. Bara í hverju einasta rennsli. Það heldur manni svo gangandi og ég er virkilega bjartsýnn þegar ég er að veiða þessa stóru staði. Það er von í lofti og merkilegt hvað maður er sáttur við núllið ef því er að skipta. Það eru ekkert margar ár þar sem maður er sáttur við núllið.“

Deildará á Sléttu var lengi á matseðlinum. Lítil og nett á. „Það er mest labb og svo skríðandi á hnjánum því hún er svo nett. Það er líka skemmtilegur veiðiskapur. Hún er ekki nema sjö kílómetrar, þriggja stanga á. Hún rennur í Þistilfjörðinn og magnað að hún, svona lítil og pen skuli fóstra stórlaxa eins og hinar árnar í Þistilfirði.“

Krókurinn hjá Arnari beygðist snemma. Stoltur gutti.

„Ætla alltaf að minnka þetta, en…“

Dagskrá sumarsins er stíf. Þegar Arnar er spurður hvort hann sé búinn að bóka mikið í sumar er svarið einfaldlega; „Já. Þetta er samt eiginlega vandamál. Maður ætlar alltaf að minnka þetta. Eða er svona með það í bakheilanum. Svo er það bara ekki hægt. Þegar veturinn skellur á þá einhvern veginn vindur þetta upp á sig. Veiðitúrarnir eru sálfræðitímarnir sem ég leita í.“

Ertu jafn góður veiðimaður og trommari?

„Já. Blessunarlega gengur þetta nú yfirleitt þokkalega vel. Auðvitað er pínu vandamál hvað maður hugsar mikið um veiðina. Þetta er bara svo gaman og  er svo þrívítt sport. Þegar maður er með hnýtingarnar líka þá getur þetta tekið allt árið. Ég fer í vorbirting í Tungufljótið og í Laxá í Kjós og það lengir tímabilið. Í Tungufljótinu í fyrra fengum við svo flott veður. Svona sumarbónus. Það var tólf stiga hiti á okkur og yndislega milt veður. Við gerðum hörkuveiði þegar við loksins fundum hann.“

Stærsti lax sem Arnar hefur veitt til þessa er 95 sentímetra lax sem hann veiddi í Sjálfheldu í Jöklu, sumarið 2020. Hann bíður enn eftir hundrað sentímetra fisknum en er ekki heltekinn af því verkefni. Eftir Jöklu hélt hann rakleiðis í Hafralónsá og landaði þar 92 sentímetra fiski. „Þetta voru svo miklir draumadagar í veiði.“

Hann handlék 101 sentímetra fisk síðasta sumar þegar veiðifélagi hans og frændi, Sindri Rósenkranz landaði stórkostlegum hæng í Laxá í Aðaldal. „Það var svo geggjaður fiskur. Ég var á háfnum og fórnaði bara höndum þegar hann var kominn að mér. Ég sagði við Sindra. Hann passar ekki í fokkings háfinn. Maður þurfti alveg að vanda sig við að anda og einbeita sér. Þessi lax var svo þykkur. Svo frábært eintak.“

Flugan Gaukurinn sem Arnar samdi.

„Hængur Rósenkranz“

En þeir félagar og frændur handléku fleiri fimm stjörnu stórlaxa síðasta haust. Eitt glæsieintakið var myndað í Fossá í Þjórsárdal. Arnar lá uppi á kletti og horfði á Sindra kasta á fiska sem voru beint fyrir neðan hann. „Ég sá fyrst að hann velti sér nokkuð ofan við Sindra. Kallaði í frænda og leiðbeindi honum hvar hann átti að byrja. Aðeins lengra. Aðeins lengra. Menda. Aðeins meira og svo tók hann. Var alveg frábært augnablik þegar hann tók loksins bleikan Bismó. En þessi fiskur er svo rosalega flottur eins og sést á myndinni. Við skírðum hann líka. Hængur Rósenkranz. Við áttum bara að vera þarna þrír saman.

Við upplifðum frábært stórlaxahaust. Höfðum nokkru áður fengið níutíu sentímetra hæng fyrir norðan sem var einmitt í þessum flokki. Svona svakalega þykkur og einhvern veginn fullkominn.“

Í seinni tíð eru helstu veiðifélagar hans í frændgarðinum. Það er Sindri og svo líka föðurbróðir hans, Þórarinn Þórarinsson sem kom Arnari á fullt í laxveiðina. Kynnti hann fyrir maðk­veiði og kenndi honum þá tækni sem nauðsynleg er þar. „Ég þroskaðist með honum í þessu sporti og hann kenndi mér mikið. Það hafa verið forréttindi að veiða með honum.“

Arnar er mikill Sage maður og á þó nokkrar slíkar. Sage One fyrir línu fimm er stöngin sem hann heldur mest upp á, þó erfitt sé að gera upp á milli. „Hún er bara svo frábær þegar maður er að leita eftir góðri „presentation“ eða fullkomnu kasti. Ég nota hana mest í minni ám en þá er hún eins og hugur manns. Fyrsta Sage stöngin mín var reyndar fyrir línu þrjú og á endanum þá braut ég hana í fiski.“

Ósanngjörn spurning Arnar. Ef þú yrðir að velja á milli þess að tromma aldrei aftur eða veiða aldrei aftur. Hvoru myndirðu fórna?

„Andskotinn,“ hrekkur upp úr honum. Hann leitar nokkurra leiða til að komast hjá því að gefa annað upp á bátinn en viðurkennir svo; „Ég myndi velja að tromma aldrei aftur. Ég gæti leyst það þannig að ég myndi bara skipta um hljóðfæri.“

Þar er svo sem úr nægu að moða fyrir tónlistarmanninn en hann spilar á píanó, gítar og bassa ef því er að skipta.

Þú ert ótrúlega fjölhæfur.

„Sko. Þetta er ekkert voðalega flókið,“ hlær trommarinn og mundar hendurnar í kross. Svona eins og hann sitji við trommurnar.

Einmitt. Takk fyrir að segja það.

Ný plata í smíðum

Það er líka mikið framundan hjá tónlistarmanninum. „Já. Heldur betur. Við erum að taka upp nýja plötu og við vonumst til þess að eitthvað af henni geti komið út á þessu ári. Það er svo sem ekki hægt að lofa neinu en það er stefnan.“

Hvernig lýst þér á þá plötu. Það sem komið er?

„Ég er mjög spenntur fyrir henni. Ég held að þetta verði besta platan sem við höfum gert. En kannski finnst manni það alltaf þegar maður gerir nýja plötu. En samt það er einhver extra góð tilfinning í gangi.“

Vá það hljómar spennandi.

Ég tengi nafnið Of Monster and Men eftir þetta viðtal bara við stóra fiska. Það er sjálfsagt ekki rétt?

Arnar hlær. „Sko. Þetta kom þannig til að Raggi var með einhverja flugu í hausnum á sínum tíma að gera teikninmyndasögu sem átti að heita þetta. Svo fórum við á sínum tíma í Músíktilraunir og þegar við vorum að skrá okkur þá vantaði nafn hið snarasta og þá átti hann þetta uppi í erminni. Það er samt skemmtilegt að við höfum heyrt ótal útfærslur af þessu nafni. Monster of man, Monsters of men og fleiri útgáfur.“

Stórt sumar er framundan hjá veiðisjúka trommaranum. Hvort sem er með kjuðana eða flugustöngina.

Hann hefur veitt um allt land. Hér með fallegan vorlax úr Laxá í Leirársveit.

Texti: Eggert Skúlason